Arion banki á meðal fjárfesta í fyrsta sjóði Leitar Capital Partners

Leitar Capital Partners er nýtt félag sem leggur áherslu á fjárfestingar í ungu og öflugu fólki og styður það við að finna fyrirtæki til að kaupa og reka. Félagið verður skráður rekstraraðili sérhæfðra sjóða og hefur lokið 1,5 milljarðs króna fjármögnun á fyrsta fjárfestingarsjóði félagsins. Fjárfestingarsjóðurinn mun fjárfesta í svokölluðum leitarsjóðum (e. search funds), en leitarsjóður er heiti yfir einkahlutafélag sem er stofnað utan um ungan frumkvöðul, oft nefndur leitari. Leitarinn fær fjármögnun til að leita að fyrirtæki til að kaupa, tekur við sem framkvæmdastjóri við kaup, fær hlut í fyrirtækinu og stýrir því svo í gegnum umbreytingu og vöxt þar til það er selt aftur.

Að fyrsta fjárfestingarsjóðnum koma reynslumiklir rekstraraðilar og einkafjárfestar, ásamt Arion banka og VÍS. Leiðandi fjárfestar eru Íslensk fjárfesting og Birgir Örn Birgisson sem er stjórnarformaður Leitar Capital Partners. Í ráðgjafaráði fyrsta sjóðsins situr meðal annarra Birna Hlín Káradóttir, yfirlögfræðingur Arion banka.

Markmið verkefnisins er að sameina krafta ungra og metnaðarfullra frumkvöðla við reynslu og þekkingu öflugra fjárfesta með kaupum á góðu fyrirtæki sem hefur tækifæri til vaxtar.

Leita í verlun