Fyrstu leitarsjóðirnir farnir af stað

Við bjóðum Kristínu Soffíu Jónsdóttur og Hlöðver Þór Árnason velkomin í Leitar fjölskylduna og óskum þeim til hamingju með stofnun leitarsjóðanna sinna. Framundan hjá þeim eru krefjandi en einstaklega skemmtilegir mánuðir þar sem þau munu skoða og greina fyrirtæki og kynnast eigendum og stjórnendum þeirra með það að markmiði að kaupa og taka við góðu og áhugaverðu fyrirtæki.

Kristín kemur frá Klak Innovit þar sem hún starfaði sem framkvæmdastjóri undanfarin ár. Hjá Klak leiddi hún endurmörkun félagsins og stofnaði mentoraþjónustu Klak sem snýr að stuðningi reynslumikilla stjórnenda við frumkvöðla hérlendis. Kristín var stjórnarformaður Faxaflóahafna um árabil, sat í stjórn Strætó og Þróunarfélags Grundartanga og hefur hefur tekið þátt í stofnun sprotafyrirtækja. Umhverfismál hafa skipað stóran sess hjá henni þar sem hún hefur séð hvernig visthæfing reksturs getur alið af sér ný tækifæri. Kristín ætlar sér að finna áhugavert fyrirtæki í framleiðslu og þjónustu sem hægt er að efla með hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins.

Hlöðver er reynslumikill stjórnandi og frumkvöðull úr upplýsingatækni sem starfaði síðast sem forstöðumaður upplýsingatæknisviðs Kviku banka þar sem hann byggði upp öflugt teymi sem kerfislega samþætti rekstur Kviku við Aur, Netgíró, TM og Lykil ásamt uppbyggingu á innlánsreikningum Auðar. Undanfarin 20 ár hefur fókusinn hans verið á nýsköpun og nýtingu nýrrar tækni til að einfalda líf viðskiptavina. Hann hefur tekið þátt í stofnun tveggja nýsköpunarfyrirtækja og unnið að vöruþróun þekktra lausna hérlendis. Hlöðver mun nú hefja leit að fyrirtæki þar sem reynsla hans og áhugi mun nýtast saman.

Við hjá Leitar Capital Partners hlökkum til að styðja þau í sinni vegferð með ráðgjöf og aðstoð frá upphafi til enda með reynslu og þekkingu á farsælum rekstri og kaupum á fyrirtækjum. Verkefni okkar er að þau nái markmiðum sínum.

 

Leita í verlun