Í sumar var tilkynnt um stofnun Leitar Capital Partners. Félagið rekur sérhæfðra sjóði sem mun leggja áherslu á að tengja saman efnilega einstaklinga við fjármagn og þekkingu, með það markmið að kaupa lítið eða meðalstórt fyrirtæki.
Sjóðurinn er fyrsti sjóður sinnar tegundar á Íslandi. Birgir Örn Birgisson, stjórnarformaður og Einar Þór Steindórsson, framkvæmdastjóri félagsins, sem leiða fjárfestingar sjóðsins, segja að hann muni fjárfesta í ungu og efnilegu fólki, styðja það við að finna og kaupa fyrirtæki og vera því innan handar eftir að viðkomandi tekur við sem framkvæmdastjóri þess.
Þeir segjast hafa fundið mikinn áhuga og fengið margar fyrirspurnir síðan í sumar frá ungu fólki með áhuga á þeirri vegferð sem þeir bjóða. „Fjárfestingarstefna Leitar byggir að mörgu leyti á leitarsjóðalíkaninu (e. Search Funds) sem er orðið mjög þekkt í Bandaríkjunum og er nú að verða vinsælt víðar, meðal annars í Evrópu. Það er töluverður fjöldi af næstu kynslóð stjórnenda sem brennur fyrir því að taka áhættu og vera í eigin rekstri. En það hefur vantað betri umgjörð til að aðstoða þau í ferlinu sem er augljóslega mjög krefjandi og svo að reka fyrirtækið í framhaldi,“ segir Einar.
“Leitar Capital Partners var stofnað í þessum tilgangi. Til að aðstoða og auka líkurnar á að ungir og öflugir einstaklingar geti orðið stjórnendur í eigin fyrirtæki. Við munum fjármagna vinnu þeirra við leit að góðu fyrirtæki. Í framhaldi greinum við fyrirtækin með tilliti til áhættu og vaxtatækifæra og kaupum ef rétt fyrirtæki finnst og við náum saman um verð við eigendur” segir Birgir Örn.
Öflugur hópur fjárfesta og rekstraraðila sem kemur að sjóðnum. Í ráðgjafaráði Leitar sitja Andri Sveinsson, Arnar Þórisson, Birna Hlín Káradóttir, Gísli Jón Magnússon og Jón Felix Sigurðsson. Aðrir ráðgjafar á vegum Leitar eru m.a. þau Jan Simon, Sigurður Gísli Pálmason, Hákon Stefánsson og Sigríður Margrét Oddsdóttir.
Kaup á smærri, stöndugum fyrirtækjum í stað þess að stofna
Hugtakið leitarsjóður varð til í kringum 1984 við bandarísku háskólana Harvard og Stanford. Ungir frumkvöðlar og útskriftarnemendur söfnuðu fjármagni frá reynslumiklum fjárfestum til að finna og kaupa stöndug, smærri fyrirtæki í stað þess að stofna nýtt fyrirtæki frá grunni, útskýrir Einar. „Leitarsjóður er því heiti yfir einkahlutafélag (e. special purpose vehicle) utan um ungan aðila og leit hans eða hennar að fyrirtæki til að kaupa, reka í gegnum vöxt og umbreytingu þar til ákvörðun er tekin að selja aftur,” bætir hann við.
„Hefðbundin leitarsjóður erlendis er með um 12 fjárfesta sem fjármagna leitina ásamt því að útvega síðar fjármagn til kaupa á fyrirtæki. Þessir ungu einstaklingar fá umboð frá nýrri stjórn og valdeflingu í gegnum eignarhlut í félaginu til að reka fyrirtækið næstu 5 til 7 árin. Það sem hvetur síðan alla hlutaðeigandi áfram eru sameiginlegir hagsmunir þeirra og möguleiki stjórnandans að eignast allt að 25 prósent hlut í félaginu ef vel gengur. Það lýsir vel hugarfari fjárfesta í leitarsjóðum og skýrir nokkuð vel ávöxtun fjárfesta í eignaflokknum,” útskýrir Birgir Örn.
Ávöxtun á pari við vogunarsjóði
Birgir Örn bendir á að ávöxtun leitarsjóða hafi verið afar góð að meðaltali á undanförnum áratugum, eða vel yfir 30 prósent árleg nafnávöxtun (IRR) að teknu tilliti til hlutdeild leitarans. „Góð ávöxtun er alltaf mikilvægur póstur en ekki síður að fjárfestar vilja gefa til baka og opna tækifæri fyrir drifinn einstakling. Þannig virka allir kraftarnir í leitarsjóðamódelinu saman,“ bætir Birgir við.
Það er áhætta fólgin í því að ráða manneskju inn á föst laun með þá von að viðkomandi finni fyrirtæki við hæfi innan ákveðins tímaramma. Erlendis fá einstaklingar yfirleitt um 24 mánuði til að finna réttu yfirtökuna. „Erlendis eru leitarar töluvert einir á báti og að meðaltali tekur leit þeirra að fyrirtæki allt að tveimur árum. Einnig er um það bil þriðjungur leitara sem tekst ekki að kaupa fyrirtæki,“ segir Einar:
„Vegna markaðsaðstæðna hérlendis þá er markmið okkar að auka líkurnar á árangri leitara innan þess tímaramma sem við höfum sett okkur. Við munum vinna náið með leitaranum að finna fyrirtæki innan 12 mánaða, leiðbeina honum og þjálfa í gegnum agaða og ítarlega leit og undirbúa fyrir hlutverkaskiptin við kaup á rekstri,” bætir hann við.
Hver eru tækifærin fyrir leitarsjóði á Íslandi?
„Leitarsjóðir urðu til vegna fyrirhugðara kynslóðaskipta við rekstur fyrirtækja og tilfærslu á eignum. Þessi tilfærsla er að gerast á hverjum einasta degi og er stór hluti þessara eigna lítil til meðalstór fyrirtæki sem bæði seljast illa og stór hluti þeirra ekki með neinn til að taka við keflinu,” segir Birgir og heldur áfram:
„Á Íslandi er þetta sama að gerast. Atvinnurekendur og eigendur minni fyrirtækja eru að leita að arftaka rekstursins. Oft eru eigendur komnir á aldur eða ákveðnar krossgötur hjá fyrirtækinu. Það er hægt að spyrja sig hverjir eiga að kaupa þessi fyrirtæki ef enginn í nærumhverfi eigandans hefur áhuga á rekstrinum. Í dag eru miklu fjölbreyttari atvinnutækifæri fyrir ungt fólk og það er ekki sjálfsagt að börn eigenda taki við rekstri foreldra sinna. Greiningar okkar á þessum markaði hér heima styðja þetta. Það er að segja, það er fjöldi fyrirtækja sem falla í þennan flokk sem er svo hin hlið peningsins, hér er ný hilla fyrir eigendur að koma fyrirtækjum í sölu og til góðs aðila,”
Hverjir ættu að sækja um að vera leitarar?
„Í grunninn erum við að leita að einstaklingum með sjálfstraust, auðmýkt og drifkraft en auðvitað er ekkert eitt rétt svar við þessari spurningu. Það eru mismunandi eiginleikar sem þarf til að finna og semja um kaup á góðu fyrirtæki og síðan að leiða það sem framkvæmdastjóri í nokkur ár. Það sem skiptir einnig máli er að einstaklingurinn sé búinn að ákveða sjálfur að fara þessa leið og hafi mikinn áhuga á að „gera eitthvað sjálfur,” eins og sagt er,“ segir Einar.
Mikilvægt að hafa trú á sjálfum sér
Birgir bætir við: „Augljóslega þarf að búa yfir ákveðinni reynslu og þekkingu sem mun nýtast á þessari vegferð. Það er nauðsynlegt að hafa trú á sjálfum sér og hafa rétt hugarfar enda er erfitt að finna rétta fyrirtækið og ekki síður krefjandi að taka við sem framkvæmdastjóri . Leitin getur reynt á þol viðkomandi og síðan þarf að setja í annan gír þegar viðkomandi tekur við sem framkvæmdastjóri og þarf að fá starfsfólk með sér í sókn.”
Aðspurðir um næstu skref segja Einar og Birgir að verið sé að ræða við nokkra álitlega einstaklinga sem þeir telja að séu reiðubúnir að hefja leit og mögulega verði einhverjir farnir af stað á næstu vikum.
„Núverandi sjóður gerir ráð fyrir að styðja allt að sex leitara á næstu tveimur árum. Það að taka ákvörðun að hætta í vinnu til að finna fyrirtæki gerist ekki á einni nóttu. Við erum til að mynda að ræða við nokkra aðila sem vilja hefja leit á næsta ári og eru núna að undirbúa sig sem best fyrir þessa vegferð. Að því sögðu þá hvetjum við þau sem telja sig búa yfir færni og reynslu að hafa samband við okkur hjá Leitar,“ segir Einar.