„Við erum að gefa ungu fólki tækifæri að fara aðra leið heldur en að fara að vinna hjá stórfyrirtækjum eða fara í „start up“. Við gefum ungu fólki tækifæri á að koma með okkur og kaupa fyrirtæki,“ segir Þórir Kjartansson í samtali við mbl.is um starfsemi nýja fjárfestingarsjóðsins Leitar Capital Partners.
Þórir situr í stjórn fjárfestingarsjóðsins sem er fyrstur sinnar tegundar á Íslandi en um er að ræða nýtt félag sem mun leggja áherslu á að fjárfesta í ungu fólki og styðja það við að finna fyrirtæki til að kaupa og reka, svokallaður leitarsjóður.
Leitar Capital Partners verður skráður rekstraraðili sérhæfðra sjóða en að fyrsta sjóðnum koma rekstraraðilar og einkafjárfestar ásamt Arion banka og Vís. Leiðandi fjárfestar í verkefninu eru Íslensk fjárfesting og Birgir Örn Birgisson, sem er jafnframt stjórnarformaður nýja fjárfestingarsjóðsins.
Vilja fólk með metnað og kraft
„Við erum að leita að fólki sem hefur mikinn kraft og mikinn metnað. Þetta krefst mikils aga því við erum að fara að leita að því að kaupa fyrirtæki sem eru ekki beint til sölu heldur erum við að leita að fyrirtæki þar sem eru kynslóðaskipti framundan. Þetta verður aðeins öðruvísi því þarna fær ungt fólk tækifæri á að kaupa fyrirtæki sem er í sjálfu sér í góðum rekstri en sér einhver tækifæri að stækka fyrirtækið og taka það á nýjar slóðir.“
Að sögn Þóris er gert ráð fyrir að sjóðurinn fjárfesti í þremur einstaklingum á hverju ári.
Hvaða kröfur gerið þið til þeirra?
„Við erum að tala um ungt fólk sem er kannski búið með MBA nám eða annað hliðstætt og kannski með fimm ára starfsreynslu að meðaltali. Þannig fólk kannski um þrítugt.“
Prófskírteini og starfsreynsla duga þó ekki ein og sér en að sögn Þóris þurfa einstaklingarnir einnig að búa yfir krafti, metnaði og síðast en ekki síst aga.
„Þetta getur verið mjög erfitt. Þú getur fengið mikið af nei-um. Við erum að reikna með því að það taki hvern einstakling kannski eitt ár að finna fyrirtæki. Það þarf mikinn aga og mikinn dugnað til að komast í gegnum þetta allt saman.“
Og þið hafið fulla trú á ungum Íslendingum?
„Já engin spurning.“
Vilja fyrirtæki í góðum rekstri
Að sögn Þóris gæti tekið um ár fyrir hvern einstakling að finna fyrirtæki sem hægt verður að kaupa enda ekki hvaða fyrirtæki sem er sem mæta kröfum fjárfestingarsjóðsins. Er þá fyrst og fremst verið að horfa til fyrirtækja sem þarf í raun ekki aukalegar fjárfestingar í, eru í góðum rekstri og með mikinn hagnað, en búa jafnframt yfir tækifærum til að vaxa.
„Við erum ekki að taka við fyrirtækjum sem eru í slæmum málum. Það sem við erum að fara að gera er að hjálpa þessum unga einstaklingi að taka fyrirtækið á næsta stig sem getur verið mikill vöxtur til margra ára. Finna eitthvað nýtt sem hægt er að gera með fyrirtækið sem annað hvort þeir sem eru með fyrirtækið í dag hafa ekki getu til að gera eða hafa ákveðið að fara ekki í þá átt.“